Stjórnendur bílaframleiðandans General Motors vilja að bandaríska ríkið selji hlut sinn í fyrirtækinu sem fyrst, en þessar hugmyndir hafa fallið í grýttan jarðveg í Washington. Ríkið á núna 26,5% í GM, en ef hluturinn væri seldur nú þyrfti ríkið að bókfæra tap vegna hlutabréfakaupanna. Það er óvinsælt núna, því það myndi ganga gegn yfirlýsingum stjórnarinnar um að björgun GM myndi ekki kosta skattgreiðendur fé. Ef bréfin væru seld nú yrði tap ríkisins um 25 milljarðar dala.

Gengi bréfa GM er núna 24 dalir á hlut, en til að koma út á sléttu þyrfti bandaríska ríkið að fá 53 dali á hlutinn. Samkvæmt frétt á vefsíðu Barrons segir þó að ríkisstjórnin myndi hugleiða sölu ef gengi GM færi upp í 30 dali á hlut. Í fréttinni segir jafnframt að ástæða þess að GM vill losna undan eignarhaldi ríkisins sé sú að núna sé þak á launagreiðslum til stjórnenda. Þá sé ekki gaman þegar gárungarnir tala um „Government Motors“.