Seðlabanki Bandaríkjanna féllst í dag á beiðni GMAC Financial Services um að verða banki, sem mun veita General Motors aðgang að ríkisaðstoð og lánum frá Seðlabankanum, að því er segir í frétt WSJ.

Þetta bætist við 17,4 milljarða dala neyðaraðstoð ríkisins til GM og Crysler í liðinni viku. Í yfirlýsingu frá Seðlabanka Bandaríkjanna segir að þessi breyting á GMAC geri fyrirtækinu kleift að kaupa ökutæki sem GM og aðrir framleiða og hjálpi þannig til við að koma á eðlilegum lánamarkaði fyrir slík kaup. Meðal skilyrða fyrir bankaleyfinu er að GM og eigandi Chrysler minnki hlut sinn í GMAC.

GMAC er eitt af stærstu bílalánafyrirtækjum Bandaríkjanna og eignir þess eru um 211 milljarðar dala. Önnur fyrirtæki sem hafa sótt um bankaleyfi eftir að ríkisstjórnin tilkynnti um 700 milljarða dala aðstoð við fjármálageirann eru American Express, CIT Group og Discover Financial Services, að því er segir í frétt WSJ.