Fjármálafyrirtækið GMAC hefur staðfest fregnir um að það hafi sóst eftir bankaleyfi frá bandarískum yfirvöldum.

Með þessu freista forráðamenn GMAC að fá aðgengi að 700 milljarða Bandaríkjadala neyðarsjóð stjórnvalda, sem var komið á laggirnar í haust til þess að greiða fyrir aðgengi banka að fjármunum á hagstæðum kjörum.

Þetta kemur fram á vef Dow Jones-fréttaveitunnar.

GMAC, sem er í 49% í eigu hins aðþrengda bifreiðaframleiðenda General Motors, tilkynnti einnig um að það hygðist gera skiptasamning að verðmæti 38 milljarða dala á eigin bréfum og bréfum fasteignalánasjóðsins Residental Capital, sem er einnig í eigu GMAC.

Um er að ræða sambærileg bréf þegar kemur að vaxtakjörum og líftíma skuldanna og mun fjármálagerningurinn kosta GMAC 2,5 milljarða dala.

Samkvæmt Dow Jones þá myndi bankaleyfi veita GMAC aukinn sveigjanleika í framkvæmd kjarnastarfsemi félagsins, en hún snýst um veitingu bíla- og fasteignalána. Ef að leyfið fæst þá myndi GMAC til að mynda fá aðgengi að daglánum bandaríska seðlabankans, svo dæmi séu tekin.

Fyrir hálfum mánuði tilkynnti GMAC um að fasteignalánastarfsemi félagsins stæði afar illa og að Residential Capital ætti í erfiðleikum að viðhalda viðundandi lausa- og eiginfjárstöðu.