Bandaríska jarðfræðistofnunin telur að 90 milljarðar fata af vinnanlegri olíu sé að finna á Norðurheimskautinu. Ef gengið er út frá því að heildareftirspurn eftir olíu sé 86,4 milljónir fata á dag gætu birgðirnar dugað til þess að anna eftirspurn í þrjú ár. Rannsókn stofnunarinnar er birt á sama tíma og Rússar, Kanadamenn, Danir, Norðmenn og Bandaríkjamenn undirbúa sig undir kapphlaup um að tryggja sér rétt til þess að nýta þær auðlindir sem kunna að leynast á svæðinu en tækifæri til þess eru raunhæfari nú en áður vegna bráðnunar íshellunnar.

Bandaríska jarðfræðistofnunin telur að svæðið sé ekki eingöngu auðugt af olíu heldur spá sérfræðingar stofnunarinnar að þar leynist allt að 1.670 billjón rúmfet af jarðgasi. Fram kemur í skýrslu jarðfræðistofnunarinnar að 13% af óuppgötvuðum hráolíubirgðum heimsins sé að finna á Norðurheimskautinu. Þar af er talið að 30% af óuppgötvuðum birgðum heims séu á svæðinu og 20% af öllu fljótandi jarðgasi sem enn er að finna í iðrum jarðar.