Fjárfestingarfélagið Gnúpur hagnaðist um 70 milljónir króna á síðasta ári. Þetta er fyrsti hagnaður félagsins frá stofnun. Þeir Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, og útgerðarmaðurinn Magnús Kristinsson stofnuðu Gnúp eftir að þeir seldu hluti sína og fjölskyldna í fjárfestingarbankanum Straumi Burðarási það sama ár. Kaupandinn var FL Group sem greiddi fyrir hlutinn með eigin bréfum og hlutabréfum í Kaupþingi.

Syrta tók í álinn strax árið 2007. Kröfuhafar tóku félagið yfir í byrjun árs 2008 og gerðu félagið upp að mestu. Gnúpur var fyrsta fjármálafyrirtækið hér á landi til að fara á hliðina í aðdraganda hrunsins. Til að gefa einhverja mynd af fallinu þá nam tap Gnúps 33 milljörðum króna árið 2008. Hagnaðurinn í fyrra skýrist nær eingöngu af 69 milljóna króna vaxtatekjum. Skuldir eru óbreyttar á milli ára, 14,4 milljarðar króna. Eigið fé er sem fyrr neikvætt um rúma 13,5 milljarða.