Gnúpur Fjárfestingafélag hefur aukið hlut sinn í FL Group í 20,05% úr 19,69%, samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni.

Um er að ræða 28.440.000 hluti en kaupgengið kemur ekki fram. Lokagengið á föstudaginn var 28,3 og má ætla að verðmæti viðskiptana sé um 805 milljónir króna.

Við þetta verður Gnúpur Fjárfestingarfélag stærst í FL Group en Oddaflug, félag í eigu Hannes Smárasonar, forstjóra, ræður yfir 19,8% hlut.

BG Capital, félag í eigu Baugs Group, ræður yfir 18,4% hlut. Jón Ásgeir mun setjast í stjórnarformannssæti FL Group en tilkynnt var um það á föstudag. Samhliða því verður hann jafnframt starfandi stjórnarformaður Baugs Group.

Hluthafar Gnúps eru eftirtaldir:
- Fjárfestingafélagið Brekka í eigu Þórðar Más Jóhannessonar 7,1%

- Félög í eigu Magnúsar Kristinssonar:
- MK44-II 29,5%
- Suðurey 17% samtals: 46,5%

- Félög í eigu Kristins Björnssonar og fjölskyldu:
- Eignarhaldsfélagið SKE-II 18,2%
- Eignarhaldsfélagið SK-II 28,2% samtals: 46,4%