Gnúpur fjárfestingarfélag hefur náð samkomulagi við lánardrottna sína um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins, en fjárhagsstöðu þess hefur hrakað mjög að undanförnu í kjölfar verðhraps hlutabréfa á markaði. Gnúpi tókst að greiða lánardrottnum sínum allt að 60% óveðtryggðra krafna þeirra sem til staðar voru, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Samkvæmt heimildum blaðsins þurfa helstu lánardrottnar Gnúps þó að afskrifa á milli 1,5- 2,5 milljarða króna vegna stöðunnar, að teknu tilliti til núverandi eignastöðu félagsins. Gnúpur er búinn að tapa 40 milljörðum af eigin fé á rúmlega hálfu ári.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins kom til greina að gera félagið gjaldþrota en vænlegra þótti að semja þar eð félagið átti fyrir svo háu hlutfalli óveðtryggðra krafna, auk þess sem hægt verður að nýta umtalsvert skattatap sem hefur myndast. Stóru bankarnir þrír munu vera helstu lánardrottnar Gnúps og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var Kaupþing stærsti lánardrottinn en þar á eftir Glitnir og Landsbanki, og munu kröfur þess fyrstnefnda hafa verið bæði veðtryggar og óveðtryggar en hinir með veðtryggar að miklu eða öllu leyti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf formi hér á vb.is. Þeir sem ekki hafa slíkan aðgang geta sent tölvupóst á [email protected] og látið opna fyrir slíkan aðgang.