Hrein raunávöxtun Gildis lífeyrissjóðs, á ársgrundvelli, fyrstu sex mánuði ársins var 15,1%, segir í tilkynningu. Fjárfestingartekjur sjóðsins námu 13 milljörðum króna á sama tímabili en iðgjöld voru 3,1 milljarðar króna og greiddur lífeyrir nam tveimur milljörðum króna.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu má rekja þessa góðu afkomu til góðrar ávöxtunar á innlendum hlutabréfum sjóðsins, en þau skiluðu 58% raunávöxtun á ársgrundvelli. Innlend skuldabréf gáfu 4,7% ávöxtun og erlend verðbréf 9%.

Hrein eign Gildis til greiðslu lífeyris nam 158,4 milljörðum króna í lok júní 2005 og hefur hækkað um 13,9 milljarða frá ársbyrjun. Eignir sjóðsins skiptast þannig að 56% eru í innlendum skuldabréfum, 22,5% í innlendum hlutabréfum og 21,5% í erlendum verðbréfum. Gildi lífeyrissjóður, sem er sameinaður sjóður Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna, er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins.