Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrstu níu mánuðum ársins 2005 námu 8.570 milljónum króna samanborið við 6.689 milljónir kr. á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 1.505 milljónir eða 18% af rekstrartekjum, samanborið við 1.253 milljónir eða 19% árið áður. Rekstrarhagnaður af eigin starfsemi var 638 milljónir kr. en var 566 milljónir á sama tímabili árið áður.

Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru jákvæð um 530 milljónir kr. en voru neikvæð um 160 milljónir kr. árið áður. Munar þar miklu um gengismun og verðbætur lána sem voru jákvæð um 973 milljónir kr. á fyrstu níu mánuðum 2005, en um 104 milljónir kr. árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 13 milljónir kr. en um 15 milljónir árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 1.182 milljónir kr. á móti 420 milljóna kr hagnaði á fyrstu níu mánuðum fyrra árs. Hagnaður tímabilsins nam 934 milljónum kr., en nam 248 milljónum kr. árið áður.

Rekstrartekjur HB Granda hf. á þriðja ársfjórðungi ársins 2005 námu 2.488 mkr, en voru 2.219 mkr. á þriðja ársfjórðungi 2004. Þessi vöxtur um 12% skýrist einkum af veiði Engeyjar og þeirra skipa, sem runnu inn í félagið með samruna við Tanga hf. og Svan RE-45 ehf., þ.e. Sunnubergs, Svans og Brettings. Gerir þessi veiði betur en að vega upp á móti minni tekjum frystiskipa, sem einkum stafar af slakri veiði á úthafskarfa og grálúðu. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á ársfjórðungnum var 297 mkr eða 12% af rekstrartekjum, samanborið við 313 mkr eða 14% sama tímabil árið áður. Lægra EBITDA hlutfall ræðst einkum af hærri olíukostnaði útgerðar og erfiðu rekstrarumhverfi vegna sterks gengis krónunnar. Þannig lækkaði meðalgengisvísitala krónunnar um 11,2% á þriðja ársfjórðungi samanborið við sama tímabil árið áður. Rekstrartap af eigin starfsemi var 16 mkr á ársfjórðungnum, samanborið við 84 mkr rekstrarhagnað á sama tímabili árið áður.

Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru jákvæð um 720 mkr, en um 189 mkr á þriðja ársfjórðungi árið áður. Munar þar mestu um gengismun og verðbætur lána sem voru jákvæð um 851 mkr á þriðja ársfjórðungi 2005, en um 315 mkr árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 46 mkr, en um 16 mkr á þriðja ársfjórðungi árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 750 mkr á móti 290 mkr hagnaði sama tímabil á fyrra ári. Hagnaður tímabilsins nam 585 mkr, en var 185 mkr árið áður.