Tesco matvörukeðjan greindi frá því í gær að nýtt fjárhagsár félagsins hefði byrjað vel, sem væri einkum að þakka betri sölutekjum af starfsemi félagsins á erlendum mörkuðum, en þar jókst salan um 22%. Á heimamarkaði Tesco í Bretlandi jókst salan um átta prósent á fyrsta ársfjórðungi samanborið við sama tímabil og í fyrra.

Tesco, sem er stærsta smásölukeðja Bretlands að markaðsvirði og í sölu, sagði í tilkynningu sem fyrirtækið sendi frá sér að það myndi einbeita sér að vexti í Bandaríkjunum, en undanfarið hefur félagið beint sjónum sínum í miklu mæli að Evrópu og Asíu. Tesco starfrækir 2800 búðir á heimsvísu, þar af eru 1500 á Bretlandi. Gengi bréfa Tesco lækkaði um tæplega fimm prósent í viðskiptum á hlutabréfamarkaði í gær.