Hagnaður Vinnslustöðvarinnar nam 313 milljónum króna á fyrstu 6 mánuðum ársins samanborið við 353 milljónir króna á síðasta ári. Þetta verður að teljast mjög góð afkoma miðað við afkomu annarra sjávarútvegsfyrirtækja í Kauphöllinni.

Heildartekjur félagsins námu tæpum 2,3 milljörðum króna og jukust um 7,8% frá sama tímabili í fyrra. Rekstrargjöld hækkuðu um sama hlutfall og námu 1530 milljónum króna. Hagnaður félagsins fyrir afskriftir nam 766 milljónum króna og jókst um 7,6% frá sama tímabili í fyrra. Framlegðarhlutfall stóð í stað á milli ára og nam 33,4%.

Afskriftir jukust um tæpar 68 milljónir króna frá fyrra ári. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 127 milljónir króna samanborið við 100 milljónir á sama tíma í fyrra.

Upphafleg áætlun fyrir árið 2004 gerði ráð fyrir 3,4 milljarða króna nettótekjum og 800 króna framlegð. Í endurskoðuðum áætlunum félagsins fyrr á árinu var gert ráð fyrir að framlegð ársins yrði 900 milljónir. Nú hefur áætlun félagsins enn verið tekin til endurskoðunar og er nú gert ráð fyrir auknum heildartekjum og að framlegð verði um 1.000 milljónir króna á rekstrarárinu. Miðað er þá við að síldveiðar haustsins gangi með svipuðum hætti og á síðasta ári. Haldist gengi krónunnar nokkuð stöðugt má gera ráð fyrir að hagnaður félagsins verði í kringum 200 milljónir króna fyrir árið í heild.