Hagnaður Íslandsbanka á öðrum ársfjórðungi var 2.256 milljónir króna. Hagnaður á fyrstu sex mánuðum ársins var 6.825 milljónir króna eftir skatta og nam hagnaður af bankanum 3.765 milljónum króna og af tryggingafélaginu 3.060 milljónum króna. Hagnaður fyrir tekjuskatt fyrstu sex mánaði ársins nam 8.200 milljónum króna, en hann var 2.932 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Um 3.465 milljónum króna af hagnaði fyrir skatta má rekja til sölu á hlutabréfum í Straumi Fjárfestingarbanka hf. á fyrsta ársfjórðungi.

?Rekstrarárangur á öðrum ársfjórðungi var góður og er hagnaður af reglulegri starfsemi á fjórðungnum sá mesti í sögu Íslandsbanka. Öflugur innri vöxtur hefur verið í efnahag bankans og þóknunartekjur hafa aukist umtalsvert. Vöxtur hefur verið í erlendri starfsemi en um 22% af útlánum eru nú til erlendra viðskiptavina. Samþætting trygginga og bankaþjónustu hefur gengið vel og er áfram unnið að þeim sóknarfærum sem hún skapar. Samhliða vexti innanlands verður eitt helsta verkefni okkar á síðari helmingi ársins að auka enn frekar eignir og tekjur bankans utan Íslands," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka í tilkynningu frá félaginu.

Arðsemi eigin fjár var 55,3% fyrstu sex mánuðina, en var 27,7% á sama tímabili 2003. Hreinar vaxtatekjur jukust um 16,2% á öðrum ársfjórðungi og alls um 27,6% miðað við fyrstu sex mánuðina í fyrra. Vaxtamunur var 2,7% fyrstu sex mánuðina, en hann var 3,1% á sama tímabili í fyrra. Hreinar þjónustu- og þóknunartekjur jukust um 16,1% á öðrum ársfjórðungi og alls um 34,3% miðað við fyrstu sex mánuðina í fyrra. Eigin iðgjöld námu 3.925 milljónum króna á fyrri árshelmingi og eigin tjón námu 3.309 milljónum króna . Kostnaður sem hlutfall af tekjum var 48,3% í bankastarfsemi og 32,1% í vátryggingarekstri. Heildareignir námu 521 milljarði króna hinn 30. júní og höfðu eignir þá aukist um 17,4% frá áramótum. Útlán námu 370 milljörðum króna hinn 30. júní og höfðu aukist um 17,5% á fyrstu sex mánuðum ársins. Framlag í afskriftareikning útlána var 1.628 milljónir króna fyrstu sex mánuðina og jókst um 46,1% miðað við sama tímabil í fyrra, sem einkum má rekja til vaxtar útlána. Eigið fé nam 32,8 milljörðum króna hinn 30. júní. Eiginfjárhlutfall á CAD grunni var 10,7%, þar af A-hluti 7,8%.