Kaldbakur birti í dag uppgjör annars ársfjórðungs og var hagnaður félagsins eftir skatta á öðrum fjórðungi 471 m.kr. sem er vel í takt við spá Greiningardeildar KB banka sem hljóðaði upp á 465 m.kr. Þar vóg þyngst innleystur söluhagnaður af eignarhlut í TM. Hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins var 1.878 m.kr. samanborið við 124 m.kr tap árið áður.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að töluverðar breytingar hafa orðið á eignasafni Kaldbaks á tímabilinu þar sem vægi erlendra óskráðra félaga hefur aukist um tæplega 1,5 milljarð og er nú ríflega 3 milljarðar en eins og kunnugt er keypti félagið ásamt öðrum hlut í bresku skartgripakeðjunni Goldsmiths á tímabilinu. Eignir félagsins í skráðum innlendum hlutabréfum voru við lok tímabilsins voru 6.075 m.kr að markaðsvirði sem er tæplega 3 milljörðum minna en við lok fyrsta fjórðungs. Af þessum 6 milljörðum var 18% hlutur í Samherja ríflega 3.000 m.kr. og eignarhlutir í Landsbankanum og Straumi voru hvor um sig ríflega 800 m.kr og eru þessar eignir ásamt Boyd Line Management Services Ltd. stærstu eignir félagsins.

Eigið fé Kaldbaks er nú 9,7 ma.kr. samanborið við 8,5 ma.kr. í upphafi árs þannig að eigið fé félagsins hefur vaxið um rúmlega 14% það sem af er ári og er eiginfjárhlutfallið 81%. "Góð afkoma Kaldbaks á sér skýringu í mikilli hækkum hlutabréfaverðs innanlands og afkoma félagsins mun áfram ráðast af þróun hlutabréfaverðs en þó segir í tilkynningu með uppgjörinu að afkoman muni nú í meira mæli ráðast af árangri erlendra verkefna félagsins.
Greiningardeild fjallaði í afkomuspá um Q-gildi Kaldbaks þar sem fram kom að okkur þætti félagið ekki ódýrt.. Þá var Q-gildið 1,2 en er nú 1,35 og ljóst að félagið verður að halda vel á spilunum til að standa undir væntingum markaðarins. Hins vegar er Q-hlutfallið ekki hátt miðað við önnur fjárfestingafélög skráð í Kauphöll Íslands," segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Greiningardeild KB banka mun á morgun gefa út ?fyrstu viðbrögð", þar sem nánar verður fjallað um uppgjör Kaldbaks.