Tekjuafgangur hins opinbera nam 20 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Afkoman er nokkuð betri en fyrir ári síðan en þá var tekjuafgangur 18,6 milljarðar króna.

Tekjuafgangur síðasta árs nemur alls 60,7 milljörðum króna sem svarar til 5,3% af landsframleiðslu en þetta hlutfall var 5,2% árið 2005. Heildartekjur ríkissjóðs á síðasta ári námu 533 milljörðum króna og hækkuðu um 9,5% á milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu mælast þær 46,7% samanborið við 47,7% árið áður. Heildarútgjöld hins opinbera, ríkissjóðs og sveitarfélaga námu 472,2 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 433,2 milljarða árið áður og hafa því hækkað um 9% á milli ára.

Hagstæða afkomu ríkissjóðs má fyrst og fremst rekja til góðrar tekjuafkomu ríkissjóðs og þá hefur tekjuafkoma sveitarfélaganna einnig verið jákvæð undanfarin ár.