Afkoma á rekstri finnska tryggingafélagsins Sampo var góð á fyrsta ársfjórðungi en hagnaðurinn var um 3,05 milljarðar evra. Helstu ástæðu hins mikla hagnaðar má rekja til sölu á bankastarfsemi Sampo til Danske Bank fyrir um 2,83 milljarða evra. Forráðamenn félagsins telja að útlit sé fyrir að afkoma af starfsemi félagsins á árinu verði góð en horfur á tryggingamarkaði þykja hagstæðar. Exista, sem meðal annars á Viðskiptablaðið, á um 15,5% hlut í Sampo.

Þrátt fyrir góða afkomu féll gengi hlutabréfa Sampo á mörkuðum í gær. Er það fyrst og fremst rakið til væntinga að forráðamenn gáfu ekkert upp hvernig þeir hyggjast nýta umtalsverða fjárfestingargetu sína í kjölfar sölunnar til Danske Bank. Búist var við einhverjum tíðindum í gær. Dow Jones Newswire-fréttastofan hefur reyndar eftir Björn Wahlroos, aðalframkvæmdastjóra Sampo, að félagið sé ekki undir neinum þrýstingi um að láta til sín taka í fjárfestingum: Markaðsvirði fyrirtækja sé það hátt um þessar mundir og að Sampo geti því setið á fjármagninu um skeið.

Gengi hlutabréfa í Sampo hafa hækkað um fjörtíu prósent undanfarna tólf mánuði sökum þess að mat manna er að félagið hafi fengið gott verð fyrir bankastarfsemi sína auk væntinga um að Sampo muni leika hlutverk í margboðaðri samþjöppunarhrinu á norrænum bankamarkaði. Stöðutaka Sampo í Nordea Bank AB þykir jafnframt renna stoðum undir þær væntingar, en sérfræðingar telja að Sampo muni freista þess að kaupa hluta af 19,9% hlut sænska ríkisins í bankanum.