Alls bárust tilboð að nafnvirði um 2,5 milljarðar króna í útboði Lánasjóðs sveitarfélaga (LSS) á LSS24-bréfum síðastliðinn föstudag og seldi sjóðurinn meira af bréfum en lagt hafði verið upp með.

Samkvæmt upprunalegri tilkynningu frá Lánasjóðunum hafði hann ætlað sér að selja bréf í fyrrnefndum skuldabréfaflokki fyrir 500 milljónir króna að nafnvirði þannig að nokkuð góð þátttaka var í útboðinu.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að Lánasjóðurinn ákvað að taka tilboðum að nafnvirði 742 milljarða á ávöxtunarkröfunni 4,75%. Heildarstaða flokksins er nú tæpir 16,8 milljarðar króna.

Fjallað er um málið í Morgunkorni Íslandsbanka sem segir að ávöxtunarkrafa tekinna tilboða í útboðinu hafi verið 108 punktum (1,08%) yfir dagslokakröfu HFF24 á föstudag, en sá flokkur er í flestu tilliti eins að gerð og LSS24.

„Er það í samræmi við muninn á kröfu flokkanna tveggja það sem af er ári og talsvert minni munur en var á kröfu bréfanna síðastliðið sumar. Hins vegar minnkaði bilið á milli þeirra töluvert á haustdögum í fyrra og fór það lægst niður í u.þ.b. 70 punkta í októberlok,“ segir í Morgunkorni.

„Væntanlega hafa fréttir af fjárhagserfiðleikum Álftaness og kastljósið sem þau tíðindi beindu að fjárhag sveitarfélaga haft áhrif til hækkunar álags á LSS24-bréfin, auk þess sem hlutfallsleg smæð flokksins gagnvart HFF-bréfunum mun að öðru óbreyttu leiða til þess að krafa hans verður nokkru hærri en íbúðabréfanna næsta kastið. Hins vegar er greiðsluflæði til LSS allvel tryggt þar sem sjóðurinn hefur veð í öllum tekjum sveitarfélaganna sem hann lánar.“

Þá segir Greining Íslandsbanka að þau kjör sem sjóðurinn fékk í útboðinu á föstudaginn séð með þeim hagstæðustu sem honum hafa staðið til boða undanfarið ár, og ætti það að öðru óbreyttu að leiða til heldur lægri fjármögnunarkostnaðar þeirra sveitarfélaga sem sækja fjármögnun sína til hans þessa dagana.