Alls bárust tilboð fyrir 46 milljarða króna í útboði Seðlabankans á ríkisvíxlum í gær. Tilboðum var tekið fyrir 33 milljarða króna með flatri ávöxtunarkröfu, 8,50%.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans en í mánuðinum féllu víxlar frá útboði júnímánaðar á gjalddaga en sá flokkur var 14 milljarðar króna að stærð. Því hafa útistandandi víxlar aukist um tæpa 20 milljarða við útboð dagsins.

Hagfræðideild Landsbankans segir ávöxtunarkröfuna í útboðinu vera svipaða og í útboði september þegar hún var 8,53%. Hins vegar hafi verið ákveðið að þessu sinni að lægsta samþykkta verð (hæsta ávöxtunarkrafa) réði söluverðinu til allra bjóðenda, ólíkt því sem hefur tíðkast í fyrri víxlaútboðum ársins. Samþykkta krafan að þessu sinni var því töluvert lægri en hæsta krafa síðasta útboðs sem var 9%.