Ráðgjafaverkefnið Útstím hófst í vikunni en þetta er í þriðja sinn sem það er haldið.

Það er Útflutningsráð sem stendur fyrir verkefninu í samstarfi við viðskiptafulltrúa sendiráða Íslands og ráðgjafafyrirtæki erlendis.

Óvenju mörg fyrirtæki taka þátt í þetta skiptið eða 19 talsins. Er þetta töluverð fjölgun frá síðasta verkefni segir Andri Marteinsson hjá Útflutningsráði.

„Útflutningsráð hefur blásið til sóknar í þessu átaki. Það má líta á þessa fjölgun þátttakenda sem framlag okkar til að greiða götu útflutningsfyrirtækja í ljósi aðstæðna í efnahagslífinu,” segir Andri.

Af þeim 19 fyrirtækjum sem taka þátt nú má m.a. nefna Stika, Amivox, Hexa, Ferðaskrifstofu Austurlands og Verkfræðistofu Árborgar.

Meginmarkmið Útstíms er að aðstoða smærri fyrirtæki við að festa vöru eða þjónustu sína í sessi á erlendum mörkuðum.

Verkefnið tekur milli 6 og 8 mánuði. Það fer að mestu leyti fram erlendis og eru flestir þættir þess í höndum erlendu ráðgjafanna.

Útstím er sjálfstætt framhald annars verkefnis hjá Útflutningsráði sem nefnist Útflutningsaukning og hagvöxtur. Það verkefni er ætlað litlum og meðalstórum fyrirtækjum þar sem stjórnendur þeirra vinna að þróun viðskiptahugmyndar sem snýr að útflutningi á vöru eða þjónustu.