Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem rekinn er af KB banka, hefur haldið áfram að skila góðri ávöxtun á árinu 2004. Nafnávöxtun Frjálsa 1 sl. 12 mánuði m.v. 30. september sl., sem hefur mest vægi hlutabréfa og er fjölmennasta og stærsta fjárfestingarleið sjóðsins, var 19,0% sem jafngildir 15,1% raunávöxtun. Ávöxtun leiðarinnar á þessu tímabili var töluvert umfram skilgreinda viðmiðunarvísitölu sem er ákvörðuð í fjárfestingarstefnu sjóðsins segir í tilkynningu frá sjóðnum.

Formlega hefur verið gengið frá sameiningu Frjálsa lífeyrissjóðsins og Séreignalífeyrissjóðsins. Við sameiningu Frjálsa lífeyrissjóðsins og Séreignalífeyrissjóðsins fluttust eignir 3.866 sjóðfélaga Séreignalífeyrissjóðsins, sem námu rúmum 3 milljörðum króna, yfir í Frjálsa lífeyrissjóðinn.

Sameiningin er talin vera til hagsbóta fyrir sjóðfélaga beggja sjóða en sjóðfélögum í tryggingadeild Frjálsa lífeyrissjóðsins fjölgaði um 2.700, sem þýðir að dreifing áhættu er meiri. Þann 30. september sl. voru sjóðfélagar í tryggingadeild sameinaðs sjóðs 18.291 talsins. Heildarstærð sameinaðs sjóðs þann 30. september sl. var rúmir 34 milljarðar og fjöldi sjóðfélaga var 29.751. Frjálsi lífeyrissjóðurinn er nú 7. stærsti lífeyrissjóður landsins.

Ný lífeyrissjóðslán

Sjóðfélagar Frjálsa lífeyrissjóðsins eiga nú kost á að sækja um hagstæð lán hjá sjóðnum til allt að 40 ára. Vextir taka mið af almennum vöxtum verðtryggðra bankalána skv. útreikningi Seðlabanka Íslands að viðbættu vaxtaálagi eða afslætti sem stjórn sjóðsins ákveður og er nú 0%. Lánin eru verðtryggð jafngreiðslulán með breytilegum vöxtum.