Raunávöxtun íslenska lífeyrissjóðakerfisins nam 10,4% á síðasta ári og er það örlítið lakari árangur en árið 2003 þegar ávöxtunin nam 11,3%, samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu. Samt sem áður er það mjög há ávöxtun í sögulegu tilliti en 10 ára meðaltal raunávöxtunar nemur 5,8%. Meðaltal síðustu fimm ára nemur hins vegar einungis 3,2% en ávöxtun sjóðanna var neikvæð á árunum 2000-2002 og skýrist það aðallega af lækkun á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum. Á sama hátt skýrist góður árangur síðustu tveggja ára af miklum hækkunum á innlendum hlutabréfamarkaði.

Ávöxtun sjóðanna var í öllum tilfellum jákvæð en misjöfn þó. Það sem skýrir mismun í ávöxtun er fyrst og fremst vægi einstakra sjóða á íslenska hlutabréfamarkaðnum. Þar sem vægið var hátt var ávöxtun góð en ávöxtun lakari þar sem vægið var lægra.

Sá lífeyrissjóður sem var með bestu ávöxtunina á síðasta ári var Lífeyrissjóður Vestmannaeyja en þar nam ávöxtunin 215%. Sá sjóður er reyndar svolítið sér á báti því að einn íslenskra lífeyrissjóða er hrein eign hans neikvæð. Það skýrir að hluta til ávöxtun sjóðsins fremur en að hann hafi gert svona vel í fjárfestingum. Sá sjóður sem kemur í öðru sæti er Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbankans en hrein raunávöxtun hans nam 19% sem er nokkuð vel fyrir ofan þá sem koma næstir í röðinni. Í þriðja sæti kemur Lífeyrissjóður Eimskipafélags Íslands með 16,5%. Þrír efstu sjóðirnir eru allir fremur litlir sjóðir en sá sem kemur í 4. sæti er 5. stærsti sjóður landsins. Lífeyrissjóður sjómanna skilaði 16,3% raunávöxtun á síðasta ári.

Það er hins vegar ekki eitt og eitt ár sem telja því að mestu skiptir að ná sem hæstri meðalávöxtun yfir tíma. Ef að það er skoðað breytist röðin nokkuð. Sé litið til hreinnar raunávöxtunar yfir tímabilið 2000-2004 er Frjálsi lífeyrissjóðurinn, 9. stærsti sjóður landsins, í efsta sæti með 7,12% meðalávöxtun. Í öðru sæti kemur síðan lífeyrisjóðurinn Skjöldur með 6,2% en hann fellur í flokk lítilla lífeyrissjóða með hálfan milljarð króna í hreinar eignir. Í þriðja sæti kemur síðan Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbankans með 6,4% og Samvinnulífeyrissjóðurinn með 6,1%.

Lífeyrissjóðum hélt áfram að fækka á síðasta ári. Í ársbyrjun sameinaðist Séreignalífeyrissjóðurinn Frjálsa lífeyrissjóðnum og um mitt ár 2004 sameinaðist Eftirlaunasjóður slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Sjóðirnir voru 50 í árslok 2003 en voru því um síðustu áramót 48. Sjóðunum hefur fækkað umtalsvert á síðustu árum og má búast við því að sú þróun muni halda áfram á næstu árum. Þannig voru í árslok 1997 66 sjóðir starfandi og hefur því fækkað um 18 síðan þá eða um 27%.

Í frétt frá Fjármálaeftirlitinu, sem tekur saman upplýsingar um starfsemi lífeyrissjóðanna, kemur fram að tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða hefur versnað á milli ára (samanburðartölur frá fyrra ári eru í sviga). Í árslok 2004 var staða 27 (24) samtryggingardeilda af 40 (43) án ábyrgðar neikvæð þar af voru 4 (0) með meiri halla en 10%, 8 (11) voru með halla á bilinu 5%-10% og 15 (13) voru með halla á bilinu 0%-5%. Staða 13 (19) deilda var jákvæð og voru þær með afgang á bilinu 0,6%-12,2%. Þeir lífeyrissjóðir sem eru með meiri halla en 10% samkvæmt árlegri tryggingafræðilegri úttekt þurfa að breyta samþykktum sjóðsins þannig að jafnvægi náist. Hafi sjóður verið með neikvæða stöðu á bilinu 5%-10% samfellt í 5 ár ber að breyta samþykktum til að ná jafnvægi á ný.