Í nýlegri afkomuspá Greiningardeildar Íslandsbanka var spáð að Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands (ICEX-15) myndi hækka um 15% á árinu. "Við áttum von á að markaðurinn færi hægar af stað en raunin hefur verið en Úrvalsvísitalan hækkaði um 10% í janúar. Flugleiðir hafa hækkað mest það sem af er ári eða 37% og Landsbankinn kemur næstur með 19,7% hækkun," segir í fréttum Íslandsbanka.

Önnur félög sem hækka umfram vísitöluna í mánuðinum eru Kaupþing sem hækkar um 12,6% og Burðarás sem er rétt yfir vísitölunni með 10,1% hækkun. Eina félagið sem lækkar í mánuðinum er Medcare Flaga sem lækkar um 3,6%. "Helst má skýra þessa þróun með því að uppgjör hafa almennt verið góð og yfir væntingum auk þess sem að talsvert hefur verið um jákvæðar fréttir frá fyrirtækjunum, einkum þeim sem eru að auka umsvif sín erlendis," segir greiningardeild Íslandsbanka.