Samkvæmt tekjukönnun Samtaka ferðaþjónustunnar og Hotelbenchmark.com var nýting hótela í betra lagi á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Batnaði nýting hótelherbergja um tæp 13% og varð 47,8% á landinu í heild. Voru það aðallega þriggja stjörnu hótelin í Reykjavík sem bættu við sig.

Sveiflur eru þó miklar á milli mánaða og var t.d. 31% betri nýting á hótelum á landsbyggðinni í febrúar að því er kemur fram í fréttabréfi SAF. Meðalverð hafa einnig batnað og eru um 13,5% hærri fyrstu tvo mánuðina. Eru þessar niðurstöður í samræmi við þá miklu aukningu á komum erlendra gesta til landsins..