Nýtt almannatengslafyrirtæki,  Góð samskipti hóf starfsemi nú um mánaðamótin.

Stofnandi Góðra samskipta er Andrés Jónsson, en hann hefur starfað við blaðamennsku, markaðsmál og almannatengsl í rúman áratug.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en síðast starfaði Andrés sem kynningarstjóri hjá bílaumboðinu B&L og þar áður tók hann þátt í stofnun fréttavefsins Eyjan.is.

„Það hefur lengi verið draumur minn að stofna eigið fyrirtæki,“ segir Andrés Jónsson í tilkynningunni.

„Það má segja að kreppan hafi flýtt þeim áformum. Ég mun halda áfram að sinna almannatengslum fyrir B&L, en hætti í föstu starfi. Með stofnun Góðra samskipta ehf. get ég nú tekið að mér fleiri skjólstæðinga.“

Þá kemur fram að helstu verkefni Góðra samskipta eru á sviði almannatengsla, fjölmiðlasamskipta, framkomuþjálfunar, atburðastjórnunar og gerð kynningarefnis.