Góð og vel launuð störf og mikill stöðugleiki í starfsmannahaldi er meðal þess sem Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ, fjallaði um í erindi sínu á Orkulindinni Ísland ? ráðstefnu SA, SI og Samorku um gildi ál- og orkuframleiðslu sem haldin var í gær.

Meðalstarfsaldur hjá Alcan er þannig með því lengsta sem gerist, eða yfir 15 ár í árslok 2005. Veltuhraði starfsmanna þar er einnig með því lægsta sem þekkist, eða 3,5 ? 4% í áliðnaði árið 2004. Í samanburði er meðaltalið meðal félagsmanna ASÍ yfir 30%. Gylfi sagði álver vissulega vera hættulega vinnustaði en sagði mikinn skilning og öryggisvitund til staðar meðal starfsmanna og stjórnenda þessara fyrirtækja, sem væru frumkvöðlar og í fararbroddi í öryggis- og aðbúnaðarmálum. Slysatíðni hefði þannig verið nokkur en farið mjög ört lækkandi og mjög lítið um alvarleg slys.