Í fréttum VBS fjárfestingabanka í dag er fjallað um að þrátt fyrir að uppgjör Kaupþings banka og Landsbankans hafi bæði verið yfir væntingum þá hafi markaðurinn sem hefur verið veikur uppá síðkastið brugðist við góðum fréttum með því að lækka ennfrekar. Úrvalsvísitala aðallista Kauphallarinnar lækkaði um 1,68% á miðvikudaginn í kjölfar uppgjörs Kaupþings banka og um 1,22% í gær í kjölfar uppgjörs Landsbankans.

Í frétt VBS er bent á að bæði uppgjörin sýni að grunnstarfsemi bankanna sé í mjög góðum gangi og arðsemi með því besta sem gerist í bankaheiminum. Einnig er bent sérstaklega á að uppgjörin eru sérstaklega góð þegar gætt er að því að á fyrstu sex mánuðum ársins hafa verið miklar lækkanir á á öllum helstu mörkuðum bankanna.

Á sama tíma hefur Landsbankinn tryggt sér 600 milljónir evra sambankalán sem er mjög gott og fjármögnun KB er búin fyrir árið 2006 og þeir komnir af stað með fjármögnun næsta árs. Að mati VBS fjárfestingabanka er framhaldið nokkuð gott og því sé eðlilega erfitt fyrir marga að skilja af hverju markaðurinn bregst svona við. "Það er aftur á móti áhyggjuefni hvað markaðurinn er veikur og spurningin er hvað þurfi til þess að snúa honum. Kannski þurfa fyrirtækin að hætta að hagnast svona mikið." segir í frétt VBS.