Ef marka má veltutölur frá Fasteignamati ríkisins er velta á fasteignamarkaði enn töluverð og virðist sem markaðurinn sé ennþá á góðri siglingu þrátt fyrir nokkuð háværar raddir um hið gagnstæða, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka.

Greiningardeildin segir að í síðustu viku nam veltan á fasteignamarkaði rúmlega 4,3 milljörðum króna og fjöldi þinglýstra samninga var 147. Meðalfjárhæð hvers samnings var 29,4 milljónir króna. Síðastliðnar 4 vikur hefur verið þinglýst 165 kaupsamningum að meðaltali en um 164 kaupsamningum hefur verið þinglýst að meðaltali á viku síðastliðin 5 ár.

"Miklar hækkanir hafa verið á fasteignamarkaði síðastliðin 2 ár, undanfarið hafa vextir hins vegar hækkað á sama tíma og talsvert framboð er af nýbyggingum það er því mat greiningardeildar að heldur dragi úr hækkunarhraða fasteignaverðs á næstunni," segir greiningardeildin.