Staða erlendra verkefna hjá Íslandsflugi er einstaklega góð um þessar mundir. Í byrjun árs gerði félagið samning við breska flugfélagið Channel Express um póstflutninga á Bretlandseyjum fyrir Royal Mail. Samningurinn er til þriggja ára. Tvær B737-300 flugvélar verða í þessum verkefnum. Flugvélarnar eru svokallaðar ?Quick Change" og verða notaðar til farþegaflugs á daginn fyrir breskar ferðaskrifstofur.

Þá gerði félagið tveggja ára samning við írskar ferðaskrifstofur um tvær B737-400 flugvélar og hafa þær verið að fljúga frá Dublin frá og með apríl. Einnig tókust samningar við Kosmar Travel um flug á milli Bretlands og Grikklands. Verðmæti samningsins er um 12 milljónir sterlingspunda eða sem nemur nærri 1,5 milljarði íslenskra króna. Kosmar Travel er stærsti söluaðili á pakkaferðum til Grikklands með um 25% markaðshlutdeild. Er þetta upphafið að nánu samstarfi félaganna og liggur nú þegar fyrir beiðni þeirra að tvöfalda viðskiptin á næsta ári.

Ein B737 er í Glasgow og flýgur fyrir þarlenda aðila, ein flýgur fyrir Royal Mail og tvær fljúga fyrir DHL.

Íslandsflug er alþjóðlegt flugfélag. Um þessar mundir eru tuttugu vélar í flota félagsins. Sex þeirra eru Airbus 300 breiðþotur, tólf Boeing 737 og tvær Dornier vélar. Félagið leigir þotur sínar til verkefna á alþjóðlegum flugleiðum í frakt- og farþegaflugi.