Atvinnuleysi mældist 1,3% í maí og helst því óbreytt frá fyrri mánuði. Á sama tíma í fyrra mældist atvinnuleysi 2,2% og hefur það því dregist saman um 0,9 prósentustig síðastliðna 12 mánuði, að sögn greiningardeildar Kaupþings banka sem segir að í maí voru að meðaltali 2.062 manns á atvinnuleysisskrá og samsvarar það fækkun um 50 manns milli mánaða.

"Mikill uppgangur hefur verið á vinnumarkaði undanfarið sem sést best í því að atvinnuleysi hefur haldist undir 2% síðan í ágúst í fyrra. Staða vinnumarkaðarins er augljóslega sterk nú um mundir enda hefur atvinnuleysi ekki verið lægra síðan í október 2001 þegar það mældist 1,2%," segir greiningardeildin.

Hún segir að atvinnuleysið hafi mælst 1,2% á höfuðborgarsvæðinu í maí en 1,4% á landsbyggðinni. ?Á landsbyggðinni mældist atvinnuleysið mest á Norðurlandi eystra eða 2,5% en minnst á Austurlandi eða 0,6%. Atvinnuleysi meðal karla minnkar úr 1% frá apríl í 0,9% í maí, á meðan atvinnuleysi meðal kvenna helst óbreytt eða 1,8%," segir greiningardeildin.

Þá fækkaði lausum störfum um 214 milli mánaða en í lok maí voru skráð 653 laus störf. ?Lausum störfum fækkaði aðallega á Suðurnesjum, Norðurlandi eystra, Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu. Lausum störfum fjölgaði hins vegar á Suðurlandi og á Norðurlandi vestra," segir greiningardeildin.