Verðtryggð lán landsmanna hækka minna á þessu ári vegna verðbólgu en raunin hefur verið frá því árið 2003. Verðbólga mælist nú 2,6% og hefur ekki verið minni síðan í apríl 2004.

Í morgunkorni greiningar Íslandsbanka segir að miðað við höfuðstól 10 milljóna króna verðtryggðs láns þá nemur hækkunin á yfirstandandi ári um 260 þúsund krónur, ef horft er fram hjá afborgunum af höfuðstólnum. Í fyrra nam hækkunin á samsvarandi láni hinsvegar 860 þúsundum króna og 1,7 milljón árið áður.

„Hjöðnun verðbólgunnar er því harla góðar fréttir fyrir skuldsett heimili, og góðar líkur eru á að höfuðstóll verðtryggðra lána muni áfram hækka hóflega fram eftir næsta ári.“