Það sem af er ári hafa flestir þeir hlutabréfamarkaðir sem Greiningardeild KB banka fylgist með hækkað nokkuð, og margir verulega. Sá markaður sem mest hefur hækkað frá áramótum er rússneski markaðurinn (OTOB) en hækkun hans er um 10,76%. Næst á eftir er íslenski markaðurinn (ICEX-15) sem hefur hækkað um 10,68% það sem ef er ári. Á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs var það einmitt rússneski markaðurinn sem hækkaði mest og íslenski markaðurinn kom þar næst á eftir segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Eftir lokun markaða í gær voru fjórar af fimm mestu hækkunum ársins hjá norðurlandaþjóðunum en aðeins sænski markaðurinn komst ekki á þann lista. Danski markaðurinn hefur hækkað um 10,48% frá áramótum, sá norski um 8,89% og sá finnski hefur hækkað um 7,73%.

"Athyglisvert er að bandarískar hlutabréfavísitölur raða sér í neðstu sæti samanburðarlistans. Þá hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 5,91% frá ársbyrjun og S&P 500 og Dow Jones vísitölurnar hafa nánast staðið í stað. Þetta er þó ekki ósvipað stöðunni á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en þá fóru bandarísku vísitölurnar einnig mjög hægt af stað og lækkuðu t.a.m. bæði Nasdaq og Dow Jones vísitölurnar í þeim fjórðungi," segir í Hálffimm fréttum.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.