Svo virðist sem efnahagslægðin sé enn ekki farin að hafa áhrif á rekstur sænska fjarskiptafyrirtækisins Ericsson sem í morgun birti uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung. Hagnaður tímabilsins nam 5,9 milljörðum sænskra króna fyrir skatt sem er yfir væntingum en greinendur höfðu spáð 5,4 milljarða hagnaði. Sömuleiðis er afkoman yfir væntingum markaðarins sem kristallast í því að gengi hlutabréfa Ericsson hækkaði um 4,8% í morgun.

Velta Ericsson á fjórðungnum nam 55,5 milljörðum sænskra króna og ef ekki hefði verið fyrir hina sterku sænsku krónu hefði veltan verið enn meiri. Þrátt fyrir að hremmingar séu framundan í heimshagkerfinu er það mat stjórnenda fyrirtækisins að eftirspurn eftir þróun á tæknilausnum verði áfram öflug og staða fyrirtækisins til þess að sinna þeirri eftirspurn sé góð.