Actavis plc, sem er móðurfélag Actavis á Íslandi, kynnti í morgun afkomu sína á þriðja ársfjórðungi í Kauphöllinni í New York. Þetta er fyrsta uppgjör sameinaðs félags en Actavis gekk frá kaupum á frumlyfjafyrirtækinu Forest Laboratories þann 1. júlí síðastliðinn.

Þar kom fram að tekjur fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi jukust um 83% í 3,7 milljarða bandaríkjadollara, en tekjurnar námu 2 milljörðum dollara á sama tímabili á síðasta ári.  Hagnaður á hlut (e. diluted earnings per share) var 3,19 dalir á þriðja ársfjórðungi 2014, samanborið við 2,09 dali á sama tímabili í fyrra, ef ekki er tekið tillit til óvenjulegra liða.

Hagnaður fyrir fjármagsliði, skatta og afskriftir (e. adjusted EBITDA) nam 1,3 milljörðum dala á þriðja ársfjórðungi 2014, samanborið við 489 milljónir dala á þriðja ársfjórðungi 2013. Handbært fé og markaðsverðbréf (e. cash and marketable securities) námu 340 milljónum dala þann 30. september 2014.

Tekjur af frumlyfjasviði, sem er fyrst og fremst starfrækt í Bandaríkjunum námu 1,6 milljörðum dala en megináhersla félagsins er á tauga- og geðlyf, heilsu kvenna, meltingarfæralyf og hjarta- og æðalyf. Þá náði félagið góðum árangri á samheitalyfjasviði bæði í Bandaríkjunum og alþjóðlega þar sem tekjurnar námu 979,9 milljónum dala. Tekjur utan Bandaríkjanna jukust um 15% á þriðja ársfjórðungi í 660,7 milljónir dala í kjölfar kaupanna á írska lyfjafyrirtækinu Warner Chilcott og Forest Laboratories og vegna vaxtar á lykilmörkuðum.