Hagnaður Alcan á Íslandi nam á síðasta ári 36,1 milljón Bandaríkjadala (um 4,4 milljörðum króna á núverandi gengi), samanborið við 57,8 milljónir dala árið áður (um 7 milljarða króna á núverandi gengi).

Tekjur félagsins námu tæpum 507 milljónum dala og jukust um 37,9 milljónir dala á milli ára. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar um 69,2 milljónir dala á árinu en þar munar langmestu um aukinn kostnað við hráefni og orkukaup sem jókst um 55 milljónir dala á milli ára.

Þá jókst kostnaður, sem flokkaður er sem ýmis framleiðslukostnaður, um 9,9 milljónir dala og nam tæplega 60 milljónum dala á árinu. Þar er átt við tækjakaup, viðhald o.s.frv. Launakostnaður jókst um 4,7 milljónir dala og nam á árinu um 37,7 milljónum dala.

Eigið fé álversins í lok árs nam þó um 496 milljónum dala og handbært fé frá rekstri nam tæpum 208 milljónum dala.