Tekjur annars ársfjórðungs 2011 námu 161,9 milljónum evra, sem er 19% aukning samanborið við annan ársfjórðung 2010 en þá námu tekjur 136,1 milljónium evra. Tekjurnar hafa aukist um 5% frá fyrri ársfjórðungi. Tekjur námu 315,4 milljónum evra á fyrri hluta árs 2011, sem er 19% aukning samanborið við sama tímabil fyrir ári

Leiðrétt EBITDA var 20,9 milljónir evra, sem er 12,9% af tekjum.  Rekstrarhagnaður var 9,2% af veltu eða 15 milljónir evra á ársfjórðungnum og 10,2% á fyrri hluta árs sem er í samræmi við markmið fyrirtækisins um rekstrarhagnað upp á 10-12% af veltu á árinu. Horfur út árið eru jákvæðar.

Virði nýrra pantana var enn á ný umfram afgreiddar pantanir. Fyrir vikið hélt pantanabókin áfram að styrkjast og nam hún 176 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs, samanborið við 169 milljónir evra í lok ársfjórðungsins á undan og 125 milljónir evra á sama tíma fyrir ári.

Markaðsaðstæður styrktust

Markaðsaðstæður hafa áfram batnað. Marel hefur styrkt markaðsstöðu sína enn frekar og sterk pantanabók gefur góð fyrirheit um framhaldið á komandi mánuðum. Engu að síður má gera ráð fyrir að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna sveiflna í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

„Við erum ánægð með þann viðvarandi vöxt sem við sjáum í starfsemi fyrirtækisins. Pantanastaðan styrkist og verkefnastaðan hefur aldrei verið betri. Það endurspeglar þær jákvæðu viðtökur sem nýjustu vörur okkar hafa fengið á mörkuðum. RevoPortioner, SensorX, StreamLine og MOS ofnakerfin okkar seljast mjög vel og QX pylsugerðarkerfin eru einnig að ná flugi. Við sjáum góðan vöxt í löndum eins og Úkraínu, Suður-Kóreu, Brasilíu og Kína, sem vegur upp á móti stöðunni í Bandaríkjunum þar sem ekki er um vöxt að ræða," segir Theo Hoen, forstjóri Marel.