Virðisrýrnun útlána Íslandsbanka vegna heimsfaraldursins nam 6,1 milljarði fyrir síðasta ár. Hagnaðurinn nam 6,8 milljörðum og féll um fimmtung, og arðsemi eiginfjár 3,7%. Þetta kemur fram í nýbirtu ársuppgjöri bankans .

Rekstrartekjur námu alls 43 milljörðum, þar af 33,4 milljarðar í hreinar vaxtatekjur, 10,5 milljarðar í hreinar þóknanatekjur, en aðrar hreinar rekstrartekjur voru neikvæðar um 743 milljónir.

Launakostnaður féll um rúman milljarð, annar rekstrarkostnaður um 640 milljónir, framlag í tryggingarsjóð um 257 milljónir og bankaskatturinn um 2 milljarða, og voru rekstrargjöld því alls um 4 milljörðum lægri en í fyrra, eða 25 milljarðar.

Hagnaður síðasta ársfjórðungs nam 3,5 milljörðum króna, ríflega tvöföldun milli ára, sem jafngildir 7,6% arðsemi eiginfjár. Eiginfjárhlutfall nam 23% í árslok og lausafjárhlutföll eru sögð vel yfir reglubundnum mörkum.

Á fjórðungnum lækkaði stjórnunarkostnaður um 5,8% þökk sé hagræðingaraðgerðum og breytingum í rekstri vegna faraldursins. Kostnaðarhlutfallið var 51,7% og því nokkuð undir 55% markmiði bankans.

Aukning í húsnæðislánum var meginástæða þess að útlán til einstaklinga jukust um 36,4 milljarða á fjórðungnum.

„Mjög sátt við arðsemi fjórðungsins“
Eftirfarandi er haft eftir Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, í kynningu uppgjörsins: „Við erum mjög sátt við arðsemi fjórða ársfjórðungs og var arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli 7,6% þátt fyrir erfiða stöðu víða í efnahagslífinu. Á árinu 2020 lækkaði kostnaður um 7,1% á sama tíma og aukning í útlánasafninu nam 11,9% og innlán jukust um 9,9%.Töluvert hefur verið fjallað um stöðu lánasafnsins og áhrif af COVID-19 en um 1.500 heimili og 650 fyrirtæki nýttu sér þau úrræði sem í boði voru og lauk í árslok 2020. Viðskiptavinir sem höfðu þörf fyrir lengra greiðsluhlé eru að mestu fyrirtæki í ferðaþjónustu og eru slík lán um 6% af lánasafni bankans í lok árs.

Hagnaður bankans á síðasta ári var 6,8 ma. kr. og á fjórða ársfjórðungi nam hagnaðurinn  3,5 ma. kr. Vaxta- og þóknanatekjur héldust stöðugar samanborið við sama tímabil á árinu áður. Einkar góður árangur náðist í verðbréfamiðlun og í fyrirtækjaráðgjöf. Fyrirtækjaráðgjöf lauk um 30 verkefnum á árinu og Íslandsbanki átti mestu viðskiptin í Kauphöllinni á árinu. Af einstökum verkefnum fyrirtækjaráðgjafar má helst nefna vel heppnað hlutafjárútboð Icelandair Group, sölu á Icelandair Hotels og sölu á Borgun, auk skulda- og hlutabréfaútboða fyrir skráðu fasteignafélögin. Íslandssjóðir skiluðu auknum hagnaði fimmta árið í röð og styrktu stöðu sína sem stærsti aðilinn á innlendum sjóðamarkaði með 35% markaðshlutdeild.

Heimurinn allur þurfti að aðlaga sig breyttum aðstæðum á árinu og bregðast við yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldri. Stafræn sókn var mikil á síðasta ári samhliða breyttum aðstæðum og kynnti bankinn meðal annars nýtt app fyrir fyrirtæki og rafræna undirritunarlausn. Mikil aukning var í stafrænum dreifileiðum bankans en mikil áhersla var lögð á að veita persónulega þjónustu til þeirra sem ekki höfðu tök á að nýta sér þessar lausnir.

Við fundum það að aldrei hefur það verið jafn mikilvægt og í þessum aðstæðum að vera hreyfiafl til góðra verka og við erum stolt af því hlutverki. Bankinn heldur áfram að taka stór skref í sjálfbærnimálum en stefnt er að því að draga úr kolefnisspori tengdu rekstri bankans um 50% frá 2019 til 2024. Á árinu gaf bankinn jafnframt út stærstu sjálfbæru skuldabréfaútgáfu íslensks fyrirtækis frá upphafi og var rúmlega þreföld umframeftirspurn. Fjármögnunin verður að fullu nýtt í sjálfbær lán og fjárfestingar. Nú þegar hefur verið staðfest að bankinn hafi ráðstafað 25 milljörðum króna til sjálfbærra verkefna eins og nánar er fjallað um í áhrifaskýrslu sjálfbæra fjármálarammans sem kemur nú út samhliða árs- og sjálfbærniskýrslunni í fyrsta sinn.

Við horfum björtum augum fram á veginn og höldum áfram að koma til móts við þarfir viðskiptavina með sveigjanleika að leiðarljósi. Þá sýnir sterk fjárhagsstaða bankans og aðstæður á mörkuðum  að tímasetningin til að hefja undirbúning að skráningu bankans á hlutabréfamarkað er góð.  Það eru spennandi tímar framundan.“