Góður fordrykkur er það sem slær tóninn fyrir frábæra árshátíð. Það er enginn sem þekkir það jafn vel og Guðmundur Sigtryggsson, barþjónn á VOX og margfaldur Íslandsmeistari barþjóna.

Hann segir það færast í aukana að fyrirtæki bjóði upp á kokteila í fordrykki fyrir árshátíðir. Sé um að ræða drykk fyrir mat mega þeir ekki vera mjög sætir til að trufla ekki bragðskynið.

Viðskiptablaðið tók hús á Guðmundi og fékk að bragða á kokteilum sem hann segir nauðsynlega til að gera góða árshátíð frábæra.

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Windmill

»» 2 cl vodka
»» 2 cl Martini Extra Dry
»» 1 cl Pisang Ambon
»» 1 cl banana líkjör
»» Skvetta koníak
»» Toppað upp með kampavíni
»» Skreyttur með blæjuberi og myntu

Windmill er kokteill sem Guðmundur hannaði sjálfur og hreppti fyrstu verðlaun fyrir í Reykjavík Cocktail Weekend - ekki að ástæðulausu. Drykkurinn er afskaplega bragðgóður, frískandi og í miklu jafnvægi, þrátt fyrir að vera nokkuð áfengur. Það skemmir ekki fyrir að Windmill hefur yfir sér sérstakan, grænan blæ sem hjálpar við að skapa skemmtilega stemningu. Windmill hentar sérstaklega vel í blandaða, litla eða meðalstóra hópa þar sem huga þarf að ólíkum smekk manna.