Félagið Skakkiturn ehf., sem er dreifingaraðili Apple á Íslandi, skilaði tæplega 134 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Félagið rekur verslun að Laugavegi undir merkinu Epli.is og sér einnig um viðhalds- og viðgerðarþjónustu fyrir Apple-búnað.

Ákveðið var af stjórn Skakkaturns að greiða út arð upp á 100 milljónir króna á síðasta ári vegna reksturs ársins 2011 þegar félagið skilaði 185 milljóna króna hagnaði.

Hagnaður Skakkaturns frá stofnun árið 2008 nemur alls um 474 milljónum króna. Félagið hefur verið rekið með hagnaði öll árin nema árið 2008 þegar það tapaði um 6 milljónum en það er árið sem Skakkiturn keypti reksturinn út úr þrotabúi Humac ehf. Glitnir hafði þá gert rúmlega 900 milljóna króna veðkröfur í búið en umboðið var keypt út úr þrotabúinu á um 160 milljónir. Aðilar tengdir Baugi Group keyptu Humac af Bjarna Ákasyni, núverandi forstjóra Skakkaturns og einn eigenda fyrirtækisins, og fleiri hluthöfum vorið 2007. Þá var félagið verðmetið á 1,5 milljarða króna samkvæmt frétt á Vísi.is.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.