Tryggingafélagið TM hagnaðist um 433 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi ársins, sem er 50% hækkun frá sama fjórðungi í fyrra.

Góð afkoma félagsins skýrist fyrst og fremst af góðri ávöxtun eignasafnsins, að því er fram kemur í tilkynningu, en fjármunatekjur námu 952 milljónum á tímabilinu og hækkuðu um 29% milli ára. Rekstrarspá fyrir árið hefur verið uppfærð í ljósi þessa og gerir nú ráð fyrir 2,8 milljarða króna hagnaði fyrir skatta.

Ennfremur lækkaði tjónakostnaður um 4%, rekstrarkostnaður lækkaði um 8,5%, og iðgjöld hækkuðu lítillega. Á móti kom að virðisrýrnun fjáreigna, sem skilaði félaginu tæpum 50 milljón króna tekjum í fyrra, kostaði það tæpar 60 milljónir í ár.

Haft er eftir Sigurði Viðarssyni, forstjóra TM, að ávöxtun fjárfestingaeigna hafi numið 3,3% á fjórðungnum, sem hafi verið verulega umfram væntingar. Mjög góð afkoma var að sögn af óskráðum hlutabréfum, og ágæt ávöxtun af skuldabréfum, en skráð hlutabréf og hlutabréfasjóðir skiluðu slakri afkomu. Óskráðu bréfin sem um ræðir eru Eyrir invest, sem er stærsti hluthafi Marel með 28% hlut, en Marel, sem er skráð á aðalmarkað, hefur hækkað mikið síðustu misseri.

Samsett hlutfall var 107,5%, sem er yfir 105% spá félagsins, en undir þeim 109,8% sem það var í fyrra. Spá félagsins gerir nú ráð fyrir að samsett hlutfall ársins 2019 verði 97%. Kostnaðarhlutfall félagsins var 20,5% á fjórðungnum, samanborið við 22,8% á sama tímabili í fyrra.

„Mjög góð afkoma á fyrsta fjórðungi skýrist fyrst og fremst af góðri ávöxtun eignasafns TM. Ávöxtun fjárfestingaeigna nam 3,3% á fjórðungnum og var verulega umfram okkar væntingar. Samsett hlutfall var 107,5% og lækkar um rúm tvö prósentustig frá fyrra ári vegna lækkunar á kostnaðarhlutfalli. Ánægjulegt er að sjá hversu vel gengur að halda rekstrarkostnaði í hófi og gerum við ráð fyrir að kostnaðarhlutfall ársins verði 19%. Það eru ákveðin vonbrigði að tjónshlutfallið skuli ekki lækka á milli ára en rekstrarspá félagsins gerir enn ráð fyrir 97% samsettu hlutfalli á árinu 2019. Vegna góðrar ávöxtunar á fyrsta ársfjórðungi og það sem af er öðrum ársfjórðungi hefur rekstrarspá ársins verið uppfærð og gerum við nú ráð fyrir að hagnaður ársins fyrir skatta verði 2,8 milljarðar,“ er haft eftir Sigurði í tilkynningunni.