Velta garðyrkjustöðvarinnar Laugalands jókst um 68% á milli áranna 2020 og 2021, fór úr 150 milljónum í 250 milljónir króna. Hagnaður félagsins nam 30 milljónum króna á síðasta ári og tvöfaldaðist á milli ára.

Hlutafélag utan um rekstur Laugalands var stofnað fyrir áttatíu árum, en frá því upp úr 1990 hefur stöðin verið sérhæfð í ræktun á gúrkum allt árið með aðstoð gróðurlýsingar og annarrar ræktunartækni.Þannig er Laugaland einn helsti framleiðandi á gúrkum í landinu og er ársframleiðslan um 500 tonn.

Bjarni Helgason keypti garðyrkjustöðina og rak í áratugi. Fyrirtækið hefur verið í eigu sömu fjölskyldu alla tíð, en þriðji og fjórði ættliður í beinan karllegg eiga reksturinn í dag, Þórhallur Bjarnason og eiginkona hans Erla Gunnlaugsdóttir ásamt syni þeirra Hjalta Þórhallssyni.