Meðallaun starfsmanna í Fjármálaeftirlitinu eru um 660.000 krónur á mánuði, samkvæmt upplýsingum frá FME, en meðallaun starfsmanna í fjármálageiranum almennt eru um 473.000 krónur, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Upplýsingar um laun í Fjármálaeftirlitinu koma fram í svari FME við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar alþingismanns.

Kemur þar fram að af 113 starfsmönnum FME þann 6. desember eru aðeins 12 starfsmenn með mánaðarlaun undir hálfri milljón, en átján starfsmenn eru með laun yfir 800.000 krónum. Þar af eru þrír með yfir eina milljón króna í laun á mánuði.

Langflestir starfsmenn FME eru hins vegar með laun á bilinu 500.000–800.000 krónur á mánuði og er miðgildi launanna á bilinu 600.000–700.000 krónur á mánuði. Samkvæmt þessu er heildarlaunakostnaður Fjármálaeftirlitsins um 75 milljónir króna á mánuði eða um 900 milljónir á ári.