Atvinnuþátttaka kvenna er hæst í heiminum á Íslandi, samkvæmt Alþjóðabankanum, og er 40% meiri á Íslandi en að meðaltali á evrusvæðinu. Þessi mikla atvinnuþátttaka kvenna virðist standa undir góðum lífskjörum þjóðarinnar, en áætlað er að ef hún væri sambærileg atvinnuþátttöku evrusvæðisins væri landsframleiðsla Íslands 15-20% minni og lífskjör væru verri.

Þetta kom fram í máli Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins, á ráðstefnunni Aukið jafnrétti - aukin hagsæld sem var haldin í gær á vegum UN Women á Íslandi, Fest og Samtökum atvinnulífsins um jafnrétti á vinnumarkaði. Þorsteinn árétti þó að gera þyrfti betur á sumum sviðum, aukið jafnræði í stjórnum fyrirtækja væri ekki nóg, einnig þyrfti að auka jafnræði og fjölbreytni í forystusveit íslenskra fyrirtækja.

Þrátt fyrir háa atvinnuþátttöku kvenna kom fram að bæta þyrfti framleiðni á Íslandi til að við stæðum jafnfætis nágrannaþjóðum okkar. Aukin framleiðni væri verkefni sem bæði karlar og konur þurfa að taka höndum saman við að leysa úr. Í erindi sínu benti Þorsteinn á að góð leið til að brjóta upp kynbundinn vinnumarkað á Íslandi væri að nýta kosti einkareksturs í auknum mæli í heilbrigðis og menntakerfinu auk þess að hvetja konur til að stofna fyrirtæki á menntasviðum sínum. Vægi einkaframtaksins væri afar lítið hér á landi í þjónustu á sviði mennta- og heilbrigðismála samanborið við t.d. Svíþjóð og því tækifæri til breytinga.

Það er skýr munur milli kynjanna í stofnun á eigin fyrirtækjum, 37% karla hafa stofnað eigin fyrirtæki en einungis 21% kvenna skv. Capacent könnun sem gerð var fyrir Samtök Atvinnulífsins síðastliðið haust. Ef horft er til allra aldurshópa hefur annar hver karl áhuga á að stofna eigið fyrirtæki en einungis þriðja hver kona. Hins vegar gætu verið breytingar í vændum því ekki mældist marktækur munur milli kynja hjá ungu fólki á aldrinum 18-24. Helmingur karla og kvenna á þeim aldri sögðust hafa áhuga á að stofna eigið fyrirtæki.