Um það bil helmingur makrílkvótast er líklega kominn í hús, en töluverð óvissa er um það hvort kvótinn náist allur þetta árið enda langt liðið á vertíðina. Heildarkvótinn er 138 þúsund tonn og reikna má með því að tæplega 70 þúsund hafi veiðst það sem af er sumri.

Fréttavefurinn Austurfrétt greinir frá þessu og ræðir við Gunnþór Ingason, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar.

„Það kemur bara í ljós hvort dæmið gengur upp,“ segir Gunnþór. „Sem stendur hefur verið mjög góður gangur á veiðunum í Síldarsmugunni og spurningin er hvort sú góða veiði halda áfram um stund.“

Hann segist hvorki bjartsýnn né svartsýnn á þetta, en markaður fyrir makríl sé góður þessa stundina og ekkert síðri en á síðasta ári. Verðið liggi á bilinu 1.600 til 1.800 dollara fyrir tonnið.

Síldarvinnslan greinir frá því á vef sínum að makrílskipin hafi verið að að fá góð hol í Smugunni um helgina en nú hefur hægt á veiðinni því fiskurinn á svæðinu sem veitt var á hefur verið að ganga inn í norska og færeyska lögsögu. Makríllinn, sem skipin eru að fá, er ágætt hráefni til vinnslu. Hann er ýmist heilfrystur, hausaður eða flakaður.

Fá íslensk skip eru nú á miðunum því flest héldu til hafnar með góðan afla. Bjarni Ólafsson AK er að landa 1.100 tonnum í Neskaupstað og Börkur NK er á leið þangað með 1.660 tonn. Beitir NK yfirgaf miðin með 1.800 tonn og Margrét EA með 1.200.

Skrifari heimasíðu Síldarvinnslunnar ræddi við Hjörvar Hjálmarsson, skipstjóra á Berki, í morgun og spurði fyrst hvað skipið hefði fiskað í veiðiferðinni. „Við fiskuðum í þessari veiðiferð 2.130 tonn á 28 tímum. Það er býsna gott. Aflinn fékkst í fimm holum en við settum aflann úr fyrsta holinu um borð í Beiti. Þetta er fínasti makríll, en hann er heldur smærri en verið hefur. Þarna er mest um að ræða 380-400 gramma fisk. Það var þokkalegt veiðiveður á miðunum en vissulega er dálítið leiðinlega langt að fara. Makríllinn á svæðinu, sem við vorum á, var að síga inn í norska og færeyska lögsögu en það var líka að fást ágætur afli nokkru norðar. Auðvitað vonast menn til að það gangi makríll inn í íslenska lögsögu en menn gefa sér ekki mikinn tíma til að leita á meðan hann gefur sig í Smugunni,“ segir Hjörvar.