Pítsastaðurinn Castello mun innan skamms opna sinn þriðja stað hér á landi í Lágmúlanum. Staðurinn selur eldbakaðar pítsur og var stofnaður sem fjölskyldufyrirtæki af tveimur bræðrum rétt fyrir hrun.

Eldri bróðirinn, Armend Zogaj, hefur ekki áhyggjur af því að nú sé slæmur tími til að opna nýjan stað, enda ekki í fyrsta sinn sem þeir opna í erfiðu árferði.

Armend flutti til Íslands aðeins 16 ára gamall og átti langan feril í flatbökugerð áður en hann hóf eigin rekstur. „Fyrsta starfið í bransanum var hjá Jóni Bakan. Þaðan fór ég til Pizza 67 og endaði loks hjá Hróa Hetti stuttu fyrir aldamót.“

Bróðir hans Dardan vann meðal annars hjá pítsastaðnum Rizzo, sem einnig seldi eldbakaðar pítsur. „Einn daginn settumst við niður og ákváðum að opna saman okkar eigin stað. Við bara sáum að við gætum gert betur,“ segir Armend, sem þá hafði starfað sem verslunarstjóri hjá Hróa í nokkurn tíma.

Castello var svo opnað árið 2007 á Dalveginum í Kópavogi, og árið 2009 færðu bræðurnir út kvíarnar og opnuðu nýjan stað í Hafnarfirði. Þrátt fyrir að hafa rekið tvo staði í rúman áratug reyna þeir alltaf að vera sjálfir á staðnum yfir háannatímann. „Við pössum alltaf að þjónustan og gæðin séu í góðu lagi. Þetta er erfiður bransi og lítið svigrúm fyrir mistök.“

Alltaf opnað í kreppu
Í ár ákváðu þeir svo að færa sig í borgina og opna þriðja staðinn í Lágmúla, og skrifað var undir leigusamning í mars, um það leyti sem kórónuveiran var að ná fótfestu hér á landi og víðar. „Alltaf þegar við höfum opnað nýjan stað hefur verið kreppa. Fyrsti staðurinn þegar kreppan var að byrja, sá næsti á botni kreppunnar, og núna aftur í miðri Covid-kreppunni.“

Armend hefur því ekki miklar áhyggjur af stöðunni, enda muni alltaf birta til að lokum. Sú eldskírn að opna stað í miðri kreppu sé auk þess góð prófraun fyrir reksturinn. „Það er gott að opna stað í kreppu. Ef hann gengur þá, þá veistu að hann mun alltaf ganga. Eftir hverja kreppu kemur betri tíð.“

Bræðurnir fengu loks leyfi núna fyrir nokkrum dögum síðan til að hefja þær breytingar og innréttingar sem til þarf í Lágmúlanum og stefna á að opna í byrjun nóvember.

Staðurinn verður stærri í sniðum en þeir sem á undan komu, á tveimur hæðum með stórum sal á efri hæðinni fyrir um 70 manns. Á neðri hæðinni verða pantanir út úr húsi afgreiddar, auk sæta fyrir 10-15 manns.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ítarlegt viðtal við Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika
  • Fjallað er um aukin kaup Íslendinga á rafmyntum
  • Það mun dragast að fullmanna Hæstarétt að nýju eftir að tveir dómarar hurfu af braut
  • Ítarleg samantekt á ríkisstuðningi við Icelandair
  • Staðan á leigumarkaði íbúða er skoðuð til hlítar
  • Litið er yfir þátttakendur í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita
  • Nýr ráðningastjóri hjá Góðum samskiptum, Tinni Kári Jóhannesson er tekinn tali um áhugann á fólki
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um tilgangslausar siðareglur RÚV
  • Óðinn fjallar um áhættusækni Orkuveitunnar