Árni Stefán Jónsson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og stærsta lífeyrissjóðs landsins, telur mikilvægt að auka svigrúm lífeyrissjóða til að fjárfesta erlendis. Þetta kemur fram í ávarpi Árna í ársskýrslu LSR.

Hann segir að núverandi lágvaxtarumhverfi hafi gert það að verkum að ríkisskuldabréf og aðrar sögulega öruggar fjárfestingar dugi ekki lengur til þess að standa við viðmið um 3,5% raunávöxtun lífeyrissjóða. Jafnframt hefur vægi þessara fjárfestinga farið dvínandi undanfarin misseri á meðan áhættumeiri fjárfestingar hafa aukist. Þá skipti máli að lífeyrissjóðir hafa úr fjölbreyttum fjárfestingarkostum að velja svo hægt sé að dreifa áhættunni eins og best verður á kosið.

„Nú, þegar sameiginleg eign þeirra [lífeyrissjóðanna] er orðin meira en tvöföld ársframleiðsla Íslands, er alveg ljóst að rýmka verður svigrúm lífeyrissjóðanna til að fjárfesta erlendis. Flestir sjóðirnir eru nú komnir langt með að fullnýta hámarksviðmiðið um að erlendar fjárfestingar megi ekki fara umfram 50% eigna sjóðanna og þá geta góð ráð verið dýr, í orðsins fyllstu merkingu. Þótt íslenskt atvinnulíf bjóði upp á marga góða kosti er fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna einfaldlega orðin það mikil að fjárfestingar innanlands duga ekki til að dreifa áhættu fyrir sjóðina," segir Árni Stefán í skýrslunni.

"Hjá LSR skiptir þetta sérstaklega miklu máli fyrir A-deildina, sem er enn í örum vexti og fyrirsjáanlegt að inngreiðslur verði mun meiri en útgreiðslur næstu árin. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að hægt sé að ávaxta eignir sjóðsins til langs tíma erlendis."