Það getur verið vandasamt að velja sér réttan fjármálaráðgjafa. Sjálfsagt vilja flestir stíga varlega til jarðar áður en þeir taka við og fara eftir ráðum um það hvernig þeir verja fjármagni sínu.

Bandaríska tímaritið Forbes hefur tekið saman nokkur atriði sem vert er að huga að þegar leitað er að fjármálaráðgjafa. Nú má gera ráð fyrir því að lög, reglur og viðskiptavenjur séu að einhverju leyti misjafnar á milli landa en punktar Forbes eru þó um margt áhugaverðir.

Þau atriði sem Forbes tilgreinir eru eftirfarandi:

Settu þér markmið. Sumir vilja einfalda ráðgjöf um sparnað og áætlun um hvernig þeir komast af á eftirlaunum sínum. Aðrir vilja finna ráðgjafa sem sér um allar fjárfestingar viðkomandi eða einhvers konar sjóðsstjóra. Sá einstaklingur sem ætlar að finna sér ráðgjafa þarf að huga vel að því hvað það er nákvæmlega sem hann er að leita að

Að spyrjast fyrir. Leitaðu að nöfnum og vertu óhræddur um að spyrjast fyrir. Lögfræðingur þinn, endurskoðandi, viðskipta- eða vinnufélagi, vinur eða bankastarfsmaður gæti vísað þér á góðan ráðgjafa. Ekki greiða neitt fyrir þá þjónustu sem felst eingöngu í því að leita að fjármálaráðgjafa.

Taktu nokkur viðtöl. Það er tímafrekt en peningar þinir eru í húfi. Reyndu að hitta viðkomandi augliti til auglitis. Undirbúðu þig vel og gerðu spurningarlista. Vertu óhræddur við að spyrja erfiðra spurninga og skrifaðu niður svörin eða taktu niður punkta. Aftur, ekki greiða neitt fyrir þessa þjónustu. Viðkomandi ráðgjafi á að vinn að því að fá þig sem viðskiptavin.

Fáðu allar þóknanir á hreint. Biddu verðandi ráðgjafa þinn um að skýra skilmerkilega frá því hvernig hann hyggst rukka þig fyrir þjónustu sína, s.s. þóknanir og fleira. Sumir innheimta þjónustu fyrir hvern klukkutíma, sumir taka mánaðarlega þóknun en aðrir árlega þóknun og svo frv. Vertu á varðbergi fyrir ráðgjafa sem ætlar innheimta fast gjald (í stað hlutfallsþóknunar). Hafðu jafnframt í huga að verðbréfasali eða ráðgjafi sem fær greidda þóknun af ávöxtun þinni er líklegri til að fjárfesta með þína hagsmuni í huga.

Gerðu árangursviðmið. Það er ekki ósanngjörn krafa að leggja strax fram viðmið um hvers konar árangur eða ávöxtun þú væntir af fjármagni þínu. Þú þarft að vinna smá undirbúningsvinnu til að fá rétt viðmið, t.d. að skoða meðalávöxtun einstakra sjóða eða bankareikninga og svo frv. Þú og ráðgjafi þinn getið síðan í sameiningu gert samkomulag um viðmið, t.d. á 12 mánaða fresti.

Fáðu meðmæli. Það er ekkert af því að biðja um meðmæli og Forbes mælir með því að þú biðjir verðandi ráðgjafa þinn um allt að sex meðmælendur.  Þrátt fyrir að ráðgjafinn vísi sjálfur á meðmælendurna er líklegt að þú fáir ágæta innsýn á vinnubrögð hans með því að heyra í þeim öllum. Síða er líka hægt að biðja ráðgjafann um símanúmer fyrri viðskiptavina og um að gera að fá þeirra álit.

Athugaðu menntun og réttindi. Í Bandaríkjunum eru til sérstök lög um persónulega fjármálaráðgjafa þannig að það er erfitt að heimfæra slík réttindi fyrir Íslendinga. Hins vegar gefur Forbes til kynna að fólk kynni sér vel menntun og réttindi þeirra sem um ræðir. Í flestum tilvikum er hægt að finna ferilsskrá viðkomandi á netinu. Þú getur líka kannað málið hjá viðeigandi eftirlitsstofnunum.

Notaðu Google. Leitaðu upplýsinga um verðandi ráðgjafa þinn og „gúgglaðu“ hann. Notaðu öll möguleg leitarorð, s.s. möguleg gælunöfn, skammstafanir og fleira. Netið geymir óteljandi upplýsingar um menn og þú ættir að fá fljótt á tilfinninguna hvernig einstakling um er að ræða.

Athugaðu dómsmál. Hægt er að fletta upp ákærum og dómsmálum á netinu. Athugaðu hvort að verðandi ráðgjafi þinn eigi aðild að einhverju dómsmáli, m.a. hvort hann sæti ákæru eða stefnu vegna starfs síns. Ef þú finnur einhver merki um slíkt skaltu óhikað spyrjast nánar fyrir.

Farðu yfir gögnin. Ekki láta aðra sjá um alla vinnuna. Ef þú ert eð gera samning þá þarftu að lesa hann vel sjálfur en ekki bara láta einhvern útskýra hann fyrir þér. Vertu óhræddur við að spyrja  og ekki henda neinum gögnum – þú gætir þurft að nota þau seinna.