Þeir Guðjón Ármann Guðjónsson, forstöðumaður á sviði hlutabréfa hjá Stefni sjóðstýringarfyrirtæki, og Jóhann Möller, sjóðstjóri innlendra hlutabréfa, segja að ávöxtunina sem merkja mátti umfram úrvalsvísitöluna á síðasta ári hjá hlutabréfasjóðnum Stefnir – ÍS 15, megi rekja til samsetningu sjóðsins samanborið við vísitöluna. Fjórir hlutabréfasjóðir skiluðu yfir 40% ávöxtun á árinu sem leið en talsverð aukning hefur orðið á eignastöðu íslenskra hlutabréfasjóða á síðustu mánuðum. Stefnir – ÍS 15 var einn þeirra.

Eignir sjóðsins í Icelandair, Bank Nordik, Högum og Regin hafi til að mynda vegið þungt í ávöxtuninni, en bréf í Icelandair hækkuðu um rúm 120% á síðasta ári. Ávöxtun hlutabréfasjóðs Stefnis var rúm 43% á árinu sem leið, miðað við tæplega 20% hækkun úrvalsvísitölunnar. Góð ávöxtun á innlendum hlutabréfamarkaði í fyrra er í takt við þróunina á helstu mörkuðum erlendis.

Samsetning fjárfestinga sjóðsins hjá Stefni hafi því verið önnur en úrvalsvísitölunnar. Benda þeir á að þeir hafi lagt áherslu á að fjárfesta í félögum þar sem reksturinn hafi gengið vel og að þeir byggi fjárfestingarákvarðanir sínar að miklu leyti á grunngreiningu á rekstri fyrirtækja á markaði. Þau félög sem hafa skilað góðri rekstrarafkomu hafa gert hvað best á markaðnum.

Aðspurðir hvernig samsetning fjárfesta í hlutabréfasjóðum skiptist almennt segja þeir að ljóst sé að stærri aðilar, fagfjárfestar, svo sem lífeyrissjóðir, skipi stóran hluta af hópnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .