Skúli Magnússon, héraðsdómari og einn af þremur dómurum í verðtryggingamálum sem nú eru fyrir dómstólum, starfaði um fimm ára skeið sem ritari EFTA-dómstólsins. Þetta er áhugavert því tvö þessara mála, mál Gunnars Engilbertssonar gegn Íslandsbanka og Sævars Jóns Gunnarssonar gegn Landsbankanum, fóru fyrir EFTA-dómstólinn. Dómstóllinn gaf í lok ágúst ráðgefandi álit í máli Gunnars og í lok nóvember ráðgefandi álit í máli Sævars Jóns.

Þegar Skúli sneri heim frá Lúxemborg fyrir um tveimur árum var viðtal við hann í fréttabréfi Lögfræðingafélags Íslands. Þar var hann meðal annars spurður hvort samskipti íslenskra dómstóla og EFTA-dómstólsins væru í góðum farvegi?

„Já, það má fullyrða það,“ svaraði Skúli. „Íslenskir dómstólar hafa almennt séð verið jákvæðir gagnvart forúrlausnar málsmeðferðinni, sem felst í því að fá ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins þegar upp koma spurningar um túlkun EES-samningsins. Tölfræðilega standa íslenskir dómstólar langtum framar norskum dómstólum að þessu leyti, ekki síst Hæstiréttur Íslands miðað við Hæstarétt Noregs. Hitt er svo annað mál að það fyrirkomulag sem við höfum enn þann dag í dag að mögulegt sé að kæra úrskurð héraðsdómara um að vísa málum til EFTA-dómstólsins er ekki hafið yfir gagnrýni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .