Rekstrartekjur og EBITDA Eimskip á þriðja ársfjórðungi voru þær hæstu á einum ársfjórð­ ungi síðan árið 2009, annan fjórðunginn í röð. Rekstrartekjur Eimskips voru 18,3 milljarðar króna (miðað við gengi 4. desember) og jukust um rúmlega 1,4 milljarða króna frá fyrra ári. EBITDA fjórðungsins nam ríflega 2,3 millj­örðum og hækkaði um 29,5% frá fyrra ári, en þá var hún tæplega 1,8 milljarðar.

Uppgjör ársfjórðungsins litast töluvert vegna söluhagnaðar vegna skips í smíðum en hagnaður vegna þess nam um 282 millj­ ónum króna. Flutningsmagn í áætlunarsiglingum jókst um 2,8% á Norður-Atlantshafi á fjórðungnum miðað við sama fjórðung árið áður og mikill vöxtur í flutningum tengdum Íslandi. Tekjur af áætlunarsiglingum félagsins námu 13,2 milljörðum króna samanborið við 12,3 milljarða árið áður, en það er aukning um 7,4% á milli ára.

Að sögn Stefáns Brodda Guðjónssonar hjá greiningardeild Arion banka er „uppgjör Eimskips á þriðja ársfjórðungi í þokkalegu samræmi við mínar væntingar, að undanskildum bókfærðum söluhagnaði upp á tvær milljónir evra, vegna endurgreiðslu á nýsmíði í Kína sem félagið féll frá kaupum á.“ Stefán segir að Eimskip njóti góðs af öflugum vexti í innflutningi sem skýri að mestu 11% vöxt í leiðakerfi Eimskips á fjórðungnum. Útflutningur virðist vaxa hægar þó að hann sé stöðugur.

„Á þriðja ársfjórðungi hægði á vexti í flutningsmiðlun, aðallega vegna áhrifa frá Kína. Kostnaður var nokkuð lægri en ég vænti og virðist félagið hafa brugðist við áhrifum af innlendum kostnaðarhækkunum og styrkingu krónunnar,“ segir Stef­án. „Á þessu ári réðst Eimskip í nokkrar, að því er virðist, vel heppnaðar yfirtökur sem hafa styrkt afkomuna. Fjárhagsstaða Eimskips virðist nokkuð rúm þannig að eflaust leitar félagið nú tækifæra til byggja frekar ofan á þær fjárfestingar,“ segir Stefán.