Þrátt fyrir að hafa sætt töluverðri gagnrýni á árunum eftir bankahrunið 2008, nú síðast í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar um lífeyrissjóðina, verður ekki framhjá því litið að íslenska lífeyrissjóðakerfið er öflugt og hefur haldið áfram að stækka í efnahagslegu tilliti. Jafnvel að teknu tilliti til verðlagsþróunar hefur hrein eign til greiðslu lífeyris aldrei verið meiri og tryggingafræðileg staða almennu sjóðanna er orðin vel viðunandi.

Hins vegar eru nokkur áhyggjuefni sem enn á eftir að taka á. Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða með ábyrgð opinberra sjóða er mjög slæm,gjaldeyrishöft setja lífeyrissjóðunum þröngar skorður og hlutur þeirra á hlutabréfamarkaði er orðinn mjög stór. Síðastnefndi þátturinn er reyndar afleiðing af höftunum, enda hafa forsvarsmenn lífeyrissjóðanna ítrekað lýst því yfir að sjóðirnir þurfi að geta á ný fjárfest í erlendum eignum til að ná nauðsynlegri áhættudreifingu.

Þá er ljóst að Íslendingum á lífeyrisaldri mun fara hratt fjölgandi á næstu árum og áratugum og mun þá álagið á lífeyriskerfið, einkum það opinbera, aukast til muna. Þá má heldur ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir eiga stóran hluta af útgefnum bréfum Íbúðalánasjóðs, en efnahagsleg staða hans er mjög veik.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um lífeyri og tryggingar sem kom út á fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .