Framboð af kaffi hefur aukist mikið undanfarna mánuði. Verð á kaffi hefur ekki verið lægra í 33 mánuði og hefur verið lækkað um rúm 50% frá vorinu 2011, þarf af um 30% síðustu sex mánuði. Fjallað er um málið á vef Wall Street Journal.

Ekki er útlit fyrir hækkanir á næstunni. Kaffiframleiðendur í Brasilíu, sem framleiðir um þriðjung alls kaffis í heiminum, hafa safnað miklum birgðum í von um hærri verð. Láti verðhækkanir á sér standa á næstunni er líklegt að margir kaffibændur neyðist til að selja.

Kólumbíumenn hafa aukið framleiðslu sína umtalsvert undanfarið. Það hefur valdið þúsundum kaffibænda vandræðum en margir lögðu niður vinnu í tvær vikur um síðustu mánaðarmót til að mótmæla lágum verðum. Lokuðu þeir meðal annars vegum til að þrýsta á aukna styrki frá stjórnvöldum í Kólumbíu.

Hér var fjallað um sjö góðar ástæður fyrir því að drekka kaffi.